Leita í fréttum mbl.is

Við skarfarnir

Margt gott við þessa páska. Hef ákveðið að hugsa um hversu skemmtilegir þeir voru, í stað þess að hugsa um hversu fljótt þeir liðu. Það er gaman að tala um páskana í fleirtölu, eins og þeir hafi verið eitthvað margir. En þetta voru vissulega nokkrir dagar, og auk þess hljóma þeir ekki vel í eintölu; páski, páskur. Skrítið orð páskar. Getur einhver sagt mér hvaðan það er komið? Jafnvel tilvísun í pásu. Það er fínt að taka pásu á páskum.

 

Vil votta skarfastofninum við Breiðafjörðinn samúð mína, því að á föstudaginn átti ég þátt í dauða fallegs fugls. Fugls sem var skarfur. Í dag situr hann á öxl Jesú, sonar guðs. (Þessi setning mín sótti innblástur í sigurræðu Zack Johnson, sem vann US Masters golfmótið í gærkvöldi. Hann þakkaði guði fyrir sigurinn, sagði að það væri ótrúlegt hvað guð getur gert. Nú er ég í sjálfu sér ekki að lýsa yfir trúleysi, en mér finnst Zack "Bible belt" Johnson vera að gera golfíþróttinni full hátt undir höfði. Ef einhvers konar guðskraftur er til, þá vona ég að orkan fari í annað en að hjálpa Zack að vinna golfmót. Þótt hann hafi verið verið vel að sigrinum kominn).

 

En aftur að dauða skarfsins. Ég hafði aldrei áður séð skarf almennilega, en ég get sagt ykkur að mér finnst þetta vera glæsilegur fugl. Klukkan sjö að morgni föstudagsins langa sigldi ég við þriðja mann út á Breiðafjörðinn á gummíbát með byssu og veiðistöng. Ég var í flotgalla sem gerði þetta enn hátíðlegra. Flott að sigla út á hafið í blankalogni, í morgunsólinni innan um fugla og seli, í gömlum appelsínugulum galla. Og hvað dauða skarfinn varðar, þá er þetta að minnsta kosti hátíðlegur dagur til að kveðja fjörðinn. Eða það finnst mér næstum því. Og Zack væri örugglega sammála mér.

Ég ætla að enda páskann (virkar ekki eða hvað?) með því að horfa á endursýningu Boston Legal frá því í gær. Ef það er einhver þarna úti sem kann ekki að meta þá ágætu þætti, þá þarf sá hinn sami að líta djúpt í eigin barm. Bæði vegna þess að það er gott að líta í barm annað slagið, og vegna þess að það er rangt að kunna ekki að meta þessa þætti. Fátt betra á skjánum en Alan Shore og Denny Crane, með viský og vindil á svölunum í lok hvers þáttar, eins og tveir fallegir skarfar ofarlega í klettinum við Breiðafjörðinn, ekki ósvipað okkur Jóni á laugardagskvöldið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðni Bjarnason

Afar skemmtileg færsla, og ég verð að segja að ég er hjartanlega sammála hverjum einasta punkti sem kom fram í henni, sérstaklega með BL sem ég tel vera afbragðssjónvarpsefni og í raun eini sjónvarpsþátturinn sem ég man hvenær er á dagskrá og geri ráðstafanir til að geta horft á!

Brjánn Guðni Bjarnason, 10.4.2007 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Færsluflokkar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband