Leita í fréttum mbl.is

Af barsmíðum og öðrum svívirðingum

Það er óhætt að segja að þetta hafi ekki verið mín helgi, afrakstur helgarinnar var eftirfarandi:

10 marka tap í bikarúrslitaleik
11 spor utan á skurð á hökunni
3 spor innan á sama skurð
4 tennur sem flísaðist úr
38,5° hiti samkvæmt nýjustu mælingu

Ég geri nú ráð fyrir því að flestir hafi séð áreksturinn sem ég lenti í í leiknum á laugardaginn, en þeir sem voru svo óheppnir að missa af honum geta séð áreksturinn hér, á u.þ.b. 16-18 mínútu í fyrri hálfleik. Þess má geta að myndatökumaðurinn á leiknum lagði sérstakan metnað sinn í það að ná "góðum" myndum af sárinu og stöðvaði mig meira að segja eftir leikinn og sagði mér sigri hrósandi " Heyrðu, ég náði alveg geðveikum myndum af skurðinum þínum" Það veitti mér mikla huggun vitandi til þess að bæði foreldrar mínir, amma mín á elliheimilinu, systur og aðrir fjölskyldumeðlimir voru að horfa á leikinn. Gott að vita til þess að þau gátu öll notið þessarar fallegu stundar með mér.

Áreksturinn var ansi hreint harður eins og sjá má og fengum við báðir myndarlega skurða ég þó töluvert myndarlegri, hann í skallann en ég undir hökuna. Eftir á að hyggja get ég nú bara held ég þakkað fyrir það að hafa ekki t.d. fengið heilahristing, kjálkabrotnað, brotið tennurnar í mér eða bitið í tunguna á mér. En engu að síður þá fékk ég mjög stóran og djúpan skurð á hökuna og einnig flísaðist upp úr 4 tönnum.

Það voru skemmtilegar lýsingar sem ég fékk frá liðsfélögum mínum eftir leikinn, t.d. sagði einn að þetta hefði litið út eins og hökunni á mér hefði einfaldlega verið flett af og annar sagði að þetta hefði verið eins og ég væri kominn með munn á hökuna!

Það var mjög fljótlega ljóst að það var ekkert hægt að plástra þetta heldur dugði ekkert minna en saumar til þess að stöðva blæðinguna. Það var læknir á staðnum á vegum hsí sem byrjaði á því að sauma patrek, en ég komst undir hendur hans þegar það voru u.þ.b. 5 mínútur eftir af fyrri hálfleik og kláraði hann að sauma mig áður en fyrri hálfleik lauk, setti alls 5 spor. Líkamlega fann ég þá ekkert til svo það var í raun ekkert sem stöðvaði mig í því að fara aftur inn á völlinn nema það að .að þurfti að búa um sárið og það er töluvert erfitt þegar það er á hökunni. Eina sem dugði til þess að búa um þetta var í raun að vefja sárabindi um hökuna og aftur fyrir háls svo ég leit út eins og pelíkani. Síðan gafst ég fljótlega upp á því að búa um þetta þegar ljóst var að leikurinn var tapaður.

Til að nudda salti í sárin þá hefur held ég ekki einum fjölmiðli hafi tekist að fara með nafn mitt rétt. Í fyrsta lagi þá byrjuðu þulirnir í leiknum á því að kalla mig George Clooney í seinni hálfleik því ég var kominn með svo stóra höku. Í öðru lagi var ég kallaður Brjánn Jónsson á stöð 2, Brjánn Brjánsson í fréttablaðinu og svo Baldur í mogganum. Svo hafa óprúttnir aðilar gefið mér viðurnefnið Hakan Sükur, sem mér reyndar finnst nokkuð fyndið.

Eftir leikinn ræddi ég við lækninn sem saumaði mig og hann hafði sjálfur tröllatrú á sauminum sínum og sagði mér bara að láta þá sauma vera í í 10 daga. En eftir að hafa skoðað fráganginn á þessu og að höfðu samráði við félaga mína ákvað ég að fara upp á slysó til þess að láta sauma þetta almennilega. Þær hlógu nú að þessu hjúkkurnar á slysó þegar ég sagði þeim að ég hefði fyrst ætlað að láta þessi fimm spor sem var hent í á 5 mínútum duga, líktu þessu við sláturkeppasaum. Úr varð að þær settur 3 spor innan í skurðinn því hann var svo djúpur og svo 11 utan á. Hér má svo sjá afraksturinn eins og hann leit út á sunnudagsmorgunn.

Ýmislegt - 2007 015

Að öðru leyti hef ég það þó ágætt, er reyndar að fá flensuskít ofan á allt annað og mældi sjálfan mig með 38,5° hita rétt áðan. 

En það er nú sem betur fer svo að það eru ekki bara slæmar fréttir af mér heldur er farið að styttast mikið í það að Cyberg Jr. #3 mæti á svæðið. Áætlaður komudagur er 22. apríl s.s. eftir rétt rúmar 5 vikur. 

Læt þetta duga að sinni og hvet að lokum meðlimi til að láta ljós sitt skína á siðunni! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Árnason

Svakalegt að sjá þetta Brjánn. Hafði samúð með ykkur Jóni á laugardaginn, og þá auðvitað einkum með þér, enda er þetta rosalegur skurður...

Átakanleg og skemmtileg yfirferð gamli. Neðri myndin er þá circa það fyrsta sem juniorinn mun sjá af pabbanum...

Kristinn Árnason, 14.3.2007 kl. 01:05

2 identicon

Já þetta var ekkert smá högg og rosalegur skurður - það var greinilegt að myndatökumaðurinn hafði mikinn metnað til að sýna frá skurðinum.

Ingólfur Snorri Kristjánsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 15:25

3 identicon

Allmyndarlegur skurður á allmyndarlegum manni, virðist vera við hæfi fyrst það gerðist á annað borð.

Klárt mál að þetta var vendipunktur í leiknum og verður að segjast að bikarinn hefði verið líklegri að fara í hina áttina ef líkamsárás Patreks hefði ekki átt sér stað. Kannski skiljanlegt að þetta gerðist, enda erfitt fyrir Brján að koma auga á svona litla nagga langt fyrir neðan sjónlínu mannsins.

Davíð (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Færsluflokkar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband